Ársfundur Birtu og ný stjórn.

Ársfundur Birtu var haldinn í dag. Sandra Guðmundsdóttir forstöðumaður fór yfir starf liðins árs og kosið var í stjórn Birtu.
Þær breytingar urðu á stjórn Birtu að Ragnheiður Hergeirsdóttir fráfarandi formaður hætti í stjórn og Svava Júlía Jónsdóttir kom ný í hennar stað. Aðrir eru áfram í stjórn og skoðunarmenn og varamenn eru þeir sömu. Ársskýrsla Birtu verður aðgengileg á heimasíðunni sem og ársreikningur.
50% þátttakenda sem kláruðu eða hættu í endurhæfingu á árinu 2015 fóru í starf eða áframhaldandi nám.

Starfið í desember

Í desember breytum við aðeins út af hefðbundnu starfi hjá Birtu og leggjum áherslu á að gera eitthvað skemmtilegt í skammdeginu. Nóvember- og desembermánuðir reynast fólki oft erfiðir og margir eiga erfitt með að halda sinni daglegu rútínu sem þeir hafa komið upp og við sjáum mætingar dala. Því er nauðsynlegt að breyta aðeins til og fylla starfið af einhverju skemmtilegu sem fólk getur hlakkað til að koma í.

Til viðbótar við hefbundið starf í stundatöflu má hér sjá jóladagskránna okkar:

30. nóvember, mánudagur kl. 13-16 – Brjóstsykurgerð
1. desember, þriðjudagur kl. 13-15 – Er barnið/unglingurinn (eða við sjálf) að hverfa í veröld internetsins?
3. desember, fimmtudagur kl. 10-12 – Konfektgerð
8. desember, þriðjudagur kl 11-16 – Óvissuferð til Reykjavíkur
9. desember, miðvikudagur kl. 12-16 – glerlistarhópur 2 klárar, kl. 13-15 – aðrir í eldhúsi
15. desember, þriðjudagur kl. 11-14 – síðasti hópfundur fyrir jól og jólaeldhús
16. desember, miðvikudagur kl. 13-16 – nammikransagerð
17. desember, fimmtudagskvöld kl. 20 – Jólatónleikar Birtubandsins á Hendur í Höfn í Þorlákshöfn

Jólafrí frá 18. desember til og með 4. janúar 2016. Starfið hefst að nýju 5. janúar.

Starfið í haust

Starfið hjá Birtu hefur farið vel af stað nú í haust. Í nóvember eru 27 einstaklingar í endurhæfingu hjá Birtu á þremur línum; matslínu, endurhæfingarlínu eða í hreyfingu hjá íþrótta- og heilsufræðingi. Fjölbreytt námskeið og fræðsla hefur verið í boði. Nýtt námskeið Lífsstíll: nýjar venjur hófst í september.  Þetta er 12 vikna námskeið þar sem boðið er upp á fræðslu og stuðning við að breyta venjum sínum til hins betra. Theódór Birgisson félagsráðgjafi hjá Lausninni, sem er nú með aðstöðu í Fjölheimum, hefur verið með fræðslu einu sinni í viku frá því í september. Theódór ætlar að vera hjá Birtu með vikulega fræðslu í vetur og er m.a. að taka fyrir samskipti, meðvirkni, nánd og samband, reiðistjórnun og fleira.

Stundatafla Birtu er aðgengileg hér

 

Stundatafla og starfið framundan

Stundataflan sem er í gildi núna og sú sem tekur gildi frá og með 2. mars eru nú aðgengilegar á heimasíðunni undir Stundatöflur.

Nýtt atvinnutengt námskeið er að hefjast 2. mars. Um er að ræða nýtt námskeið sem er þróað af ráðgjöfum Birtu og verkefnastjórum hjá Fræðsluneti Suðurlands. Markmiðið er að bjóða upp á það reglulega yfir árið. Námskeiðið verður kennt tvisvar í viku í alls 12 skipti. Nemendur fá fræðslu um ýmislegt sem viðkemur vinnumarkaðinum og því að fara í starf á ný eftir fjarveru frá vinnumarkaðinum. Farið verður í heimsóknir á vinnustaði á Suðurlandi auk þess sem þátttakendur fara í starfsprófun til að fá tækifæri til að aðlaga sig að vinnumarkaðinum.

Fjögurra vikna námskeið í núvitund eða mindfullness hefst einnig þann 2. mars. Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna á Facebook undir Núvitund – mindfullness námskeið.

Starfið á vorönn

Starfið hjá Birtu er nú að fara á fullt á vorönn. Í næstu viku byrja þátttakendur á sjálfsstyrkingar- og sjálfseflingarnámskeiði hjá Fræðsluneti Suðurlands. Námskeiðið verður vikulega næstu sjö vikurnar. Í lok febrúar byrjar atvinnutengt námskeið sem miðar að því að efla og undirbúa þátttakendur undir að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Þeir sem fara á það námskeið halda áfram í prógramminu hjá Birtu en bæta við sig starfsprufu. Tveir hópar eru nú í gerlist hjá Dagnýju í Hendur í Höfn, byrjenda- og framhaldshópur. Líkamsræktin er í Sportstöðinni og mæta þátttakendur tvisvar í viku og æfa undir handleiðslu íþrótta- og heilsufræðings. Jóga og slökun er svo einu sinni í viku í salnum í Sandvíkursetri.